Skip to main content
EURES (EURopean Employment Services)

EURES á landamærasvæðum

Innri landamærasvæði ESB ná yfir meira en 40% af yfirráðasvæði Evrópusambandsins og þar búa næstum 2 milljónir manna sem sækja vinnu yfir landamæri. Samkvæmt nýjustu skýrslu um hreyfanleika vinnuafls innan ESB búa meira en 1,3 milljónir íbúa í ESB í einu landi og starfa í öðru.

Engu að síður geta launþegar sem sækja vinnu yfir landamæri staðið frammi fyrir ýmsum hindrunum daglega, s.s. öðrum landsvenjum, almannatryggingakerfum, skattareglum og réttarkerfum. Þar að auki eru almenningssamgöngur oft minna þróaðar á landamærasvæðum samanborið við samgöngukerfi innan landa, sem setur fólki enn frekari skorður við að starfa erlendis í ESB.

EURES hjálpar launþegum sem sækja vinnu yfir landamæri að yfirstíga þessar hindranir með því að veita fjárstuðning til samstarfs yfir landamæri undir merkjum Félagsmálasjóðs Evrópu Plús (European Social Fund Plus, ESF+).

Í þessum samstarfsverkefnum hafa EURES-meðlimir og samstarfsaðilar þeirra samvinnu yfir landamæri til að gera launþegum hægara um vik með að starfa erlendis og auðvelda vinnuveitendum að gera það mögulegt. Samtök og stofnanir sem eru ekki hluti af EURES-netinu geta einnig tekið þátt ef þau hafa eitthvað fram að færa í þessu sambandi. Til samstarfsaðila teljast yfirleitt opinberar vinnumiðlanir, samtök atvinnurekenda og stofnanir á borð við háskóla, viðskiptasamtök, stéttarfélög og verslunarráð.

Árið 2024, 2025 og 2026 fá 6 samstarfsverkefni yfir landamæri, þar sem alls 8 lönd taka þátt, fjármögnun frá ESF+. Auk þessa fer fram ýmislegt annað samstarf án fjárstuðnings ESB.

Þau samstarfsverkefni yfir landamæri sem njóta stuðnings ESF+ eru sýnd hér á eftir. Smelltu á tenglana til að finna út meira um samstarfsverkefnin og starfsemi þeirra og þjónustu, eða til að biðja um frekari upplýsingar eða stuðning:

 

Meginmarkmið samstarfsverkefnanna er að miðla upplýsingum og ráðgjöf til atvinnuleitenda og vinnuveitenda um vinnu og ráðningar yfir landamæri, bjóða atvinnutækifæri og veita þjónustu fyrir og eftir ráðningu.

Launþegum stendur til boða þjónusta sérfræðingahópa sem veita stuðning á öllum stigum starfsferils þeirra og svara spurningum um praktísk atriði í sambandi við að sækja vinnu yfir landamæri.

Innan samstarfsverkefnanna fer einnig fram eftirlit með flæði launafólks yfir viðkomandi landamæri og þróun vinnumarkaðarins, sem og greining á hindrunum sem geta hamlað frjálsri för launafólks á vinnumarkaði landamærasvæðisins.

Á hverju ári fer fram á vegum samstarfsverkefnanna ýmiss konar starfsemi til stuðnings bæði atvinnuleitendum og vinnuveitendum.

Frekari ráðgjöf um atvinnutækifæri á þínu svæði færðu með því að leita að EURES ráðgjöfum út frá samstarfsverkefni yfir landamæri.